Fjárfestingarbankinn J.P.Morgan metur virði hlutabréfa Marels, sem er tvískráð í Euronext kauphöllinni í Hollandi, á 7,7 evrur, eða um 1.100 krónur miðað við núverandi gengi krónunnar, á hlut samkvæmt nýju verðmati. Það er 40% hærra en núverandi gengi félagsins sem nemur 5,5 evrum. Hlutabréfaverð Marels í íslensku kauphöllinni stendur í 770 krónum þegar fréttin er skrifuð en hæst fór gengi félagsins í 973 krónur í lok ágúst síðastliðins.

Þrátt fyrir að verðmatið sé töluvert hærra en markaðsvirði Marels í dag þá lækkar það um 5% frá verðmati fjárfestingabankans í júní síðastliðnum þegar viðmunarverðið (e. target price) var 8,1 evra á hlut.

Greiningardeild J.P.Morgan segir að síðasti ársfjórðungur Marels, sem skilaði uppgjöri á miðvikudaginn síðasta, hafi verið sá fjórði í röð þar sem pantanir fara fram úr væntingum. Hins vegar hafi framlegð félagsins á síðasta fjórðungi ollið vonbrigðum. Verðmatið var lækkað frá því í sumar vegna horfa á að ytri aðstæður muni bíta lengur í framlegð félagsins.

Sjá einnig: Marel hagnaðist um tæpa 14 milljarða króna

„Okkur líkar við Marel vegna einstakra vaxtartækifæra í sérhæfðum dýrapróteinsiðnaði þar sem félagið er í fararbroddi og þá staðfestir sterk pöntunarstaða vaxtarhorfurnar,“ segir í verðmatinu. „Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að styrkja markaðsstöðu sína með yfirtökum auk þess að öflug frumkvöðlamenning undir stjórn núverandi forstjóra aðskilur það frá keppinautum.“

Þá telur JP Morgan að Covid-19 faraldurinn muni auka vöxt Marels til meðallangs tíma þar sem viðskiptavinir félagsins leggi síaukna áherslu á sjálfvirknivæðingu til að bregðast við skorti á vinnuafli og verðbólgu.

„Við sjáum vaxandi fólksfjölda á heimsvísu keyra áfram vöxt eftir dýrapróteini. Ennfremur mun aukin framleiðni fyrir viðskiptavini og aukin eftirspurn eftir hugbúnaðarlausnum gefa Marel forskot á samkeppnisaðila í gegnum Innova hugbúnaðinn. Við gerum ráð fyrir því að Marel vaxi hraðar en geirinn í heild, bæði þegar horft er til veltu og framlegðar.“

Fram kemur að verðmatið miðar við 21x margfaldara á vænt á áætlað heildarvirði sem hlutfall af rekstrarhagnaði (21x 2023e EV/EBIT).