Brunnur vaxtarsjóður, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða og Landsbankans, hagnaðist um 440 milljónir á síðasta ári samanborið við 423 milljónir árið áður. Hagnaðurinn stafar aðallega af 520 milljóna virðishækkun á eignasafninu en eignarhlutir Brunns í félögum voru bókfærðir á 4,5 milljarða.

Sjóðurinn, sem Brunnur Ventures og Landsbréf reka, bókfærði 12% hlut sinn í augnlyfjaþróunarfélaginu Oculis á 2,7 milljarða í árslok 2021 en sjóðurinn bætti við fjárfestingu sína í félaginu fyrir 608 milljónir á síðasta ári. Oculis er því metið á 22,4 milljarða króna í ársreikningi Brunns vaxtarsjóðs. Brunnur og fjárfestingafélagið Silfurberg voru meðal fjárfesta sem leiddu 57 milljóna dala, eða um 7 milljarða króna, hlutafjárútboð Oculis í maí síðastliðnum.

Oculis var stofnað af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Tækni Oculis byggir á nanóögnum, gerðum úr sýklódextrín-sameindum, sem nýttar eru til að auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni.

Þá var tæplega 40,7% hlutur Brunns vaxtarsjóðs í DT Equipment (DTE) metinn á 901 milljón í árslok 2021 en ári áður var 39,8% hlutur í félaginu metinn á 477 milljónir. Sjóðurinn bætti við sig í DTE fyrir 221 milljón króna á síðasta ári. DTE, sem var stofnað árið 2013 af Sveini Hinriki Guðmundssyni og Karli Ágústi Matthíassyni, þróar og selur búnað til efnagreiningar á snefilefnum í álbráð og raflausnum.

Sjá einnig: Hugbúnaðarlausn á teikniborði DTE

Brunnur vaxtarsjóður á einnig fimmtungshlut í Avo Software sem er metinn á 325 milljónir. Avo þróar forritunartól sem smíðar sjálfvirkan kóða og villuleiðréttingarforrit. Avo var stofnað af Stefaníu Bjarneyju Ólafsdóttur og Sölva Logasyni í byrjun árs 2018.

Auk framangreindra þriggja félaga hefur Brunnur vaxtarsjóður fjárfest í Laka Power, Nanitor, Grid og EpiEndo.

Brunnur vaxtarsjóður II fjárfest í átta félögum

Í mars 2021 lauk Brunnur Ventures og Landsbréf fjármögnun á 8,3 milljarða króna vísisjóðnum Brunni vaxtarsjóði II. Fjárfestingatímabil sjóðsins er 3-5 ár og getur lengst verið til apríl 2026 en stefnt er að því að tuttugu félög verði eignarsafninu.

Sjóðurinn keypti í fyrra eignarhluti í The One Company, sem þróar og rekur stefnumótasmáforritið Smitten, rafskútufyrirtækinu Hopp og hugbúnaðarfyrirtækinu Taktikal. Brunnur vaxtarsjóður II fjárfesti einnig í breytanlegum skuldabréfum útgefnum af Vibe Music Inc., Kosmi Inc., Quest Portal ehf., Standby Deposits Inc. og 369 ehf.