Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., sem rekur þjónustu um bátaferðir um Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, hagnaðist um 497 milljónir króna á síðasta ári og velti 1,1 milljarði. Árið 2023 var metár í sögu félagsins, bæði þegar litið er til hagnaðar og veltu.

Hagnaður ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári en árið 2022 nam hagnaður 241 milljón. Árið 2021 hagnaðist félagið svo um 139 milljónir og hefur það því alls hagnast um 877 milljónir á undanförnum þremur árum.

Í samtali við Viðskiptablaðið síðasta sumar sagði Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóri og eigandi félagsins, að sín tilfinning væri sú að rekstrarárið 2023 yrði ekki langt frá metárinu 2018, en það ár velti félagið rúmum milljarði og hagnaðist um 383 milljónir. Sú tilfinning hans reyndist rétt, og gott betur.

Hann reiknar með að rekstrarniðurstaða yfirstandandi ár verði svipuð og í fyrra, þrátt fyrir að komum ferðamanna til landsins hafi aðeins fækkað og veðrið verið verra en síðasta sumar. „Við höfum ekki orðið vör við neina fækkun. Sem dæmi var síðastliðinn maí besti maímánuður í sögu félagsins.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.