Loðnuvinnslan hf. á Fáskrúðsfirði skilaði methagnaði í fyrra, 3,5 milljörðum króna. Samkvæmt fréttatilkynningu er um að ræða langbesta rekstrarár í sögu fyrirtækisins.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar fór fram síðastliðinn fimmtudag þar sem þar sem niðurstaða síðasta árs var kynnt fyrir hluthöfum.
Samkvæmt tilkynningu nam hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta í fyrra 3.483 milljónir króna á móti 1.247 milljónum árið 2021.
Tekjur jukust um 45% á sama tímabili og voru 18.180 milljónir. Tekjur voru 14.039 milljónir að frádregnum eigin afla.
Í apríl síðastliðnum var tilkynnt að Friðrik Már Guðmundsson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, hefði ákveðið að láta af störfum í haust en hann hefur verið framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar undanfarin 10 ár.
Undir stjórn Friðriks hefur eigið fé félagsins fimmfaldast á síðustu níu árum og farið úr 3 milljörðum í 14.895 milljarða undir árslok 2022, sem er 54% af niðurstöðu efnahagsreiknings.
Greiða 20% arð til hluthafa
Veltufé frá rekstri hækkaði töluvert á milli ára og var 4.502 milljaðrar í fyrra á móti 1.572 milljörðum árið 2021.
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er stærsti hluthafi LVF og fer með 83% eignarhlut. Á aðalfundinum í síðustu viku var ákveðið að greiða 20% arð til hluthafa sem gera 140 milljónir. Af 750 íbúum Fáskrúðsfjarðar eru 350 meðlimir í Kaupfélaginu. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að allar ákvarðanir um starfsemi Loðnuvinnslunnar séu teknar með það fyrir augum að þær gagnist heimabyggð.
Loðnuvinnslan og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga ákvaðu á aðalfundum sínum að útdeila styrkjum til hinna ýmsu málefna til eflingar samfélagsins í Fáskrúðsfirði. Heildarupphæðin að þessu sinni var 32,6 milljónir króna.
Ungmennafélagið Leiknir fékk afhentar 17 milljónir króna til íþrótta og æskulýðsstarfs, Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 10 milljónir króna, Félag um Franska daga fékk 1,8 milljónir í styrk, Björgunarsveitin Geisli fékk 1 milljón krónur og Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisins Skrúðs.