Skyndibitakeðjan Metro var rekin með 52 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við tæplega 12 milljóna tapi árið 2023.

Stjórn félagsins lagði til að greiddur verði arður til hluthafa að fjárhæð 60 milljónir króna að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Rekstrartekjur jukust um 15% milli ára og námu 927 milljónum króna í fyrra. Rekstrargjöld jukust um 7,6% og námu 763 milljónum. Ársverk voru 25 líkt og árið áður. EBITDA-hagnaður Metro jókst úr 94 milljónum í 163 milljónir króna milli ára.

Eignir félagsins námu 492 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 130 milljónir króna.

Kaupfélag Skagfirðinga á helmingshlut í Metro á móti Háa Kletti, sem er í eigu Árna Péturs Jónssonar.