Franska kjarnorkufyrirtækið Electricite de France (EDF), sem franska ríkið hyggst þjóðnýta í haust, tapaði 5,3 milljörðum evra, eða um 735 milljörðum króna, á fyrri helmingi ársins. Financial Times greinir frá.

Ófyrirséðar viðgerðir og lokun kjarnakljúfa vegna tæringar kostuðu félagið umtalsvert fé. EDF áætlar að það muni rýra afkomu kjarnastarfseminnar um 24 milljarða evra í ár en fyrirtækið hafði áður áætlað að upphæðin yrði í kringum 18,5 milljarða evra.

Raforkuframleiðsla fyrirtækisins hefur ekki verið minni í að minnsta kosti þrjá áratugi. Stöðvun framleiðslu í ákveðnum kjarnakljúfum gat ekki komið á verri tíma en EDF neyddist til að ráðast í dýrkeypt orkukaup á heildsölumarkaði. Fjármálastjóri fyrirtækisins segir að EBITDA-hagnaður verði enn lægri á seinni árshelmingi vegna hækkunar á heildsöluverði.

Í ofanálag gerir EDF ráð fyrir að EBITDA-hagnaðurinn dragist saman um 10 milljarða evra vegna verðþaks franska ríkisins á orku.

EDF er í 84% eigu franska ríkisins. Forsætisráðherra Frakklands tilkynnti í byrjun júlí að ríkisstjórnin hygðist þjóðnýta fyrirtækið til að ná fullri stjórn á fyrirtækinu á meðan núverandi orkukrísa stendur yfir. Tilkynnt var í síðustu viku að franski ríkissjóðurinn muni greiða 9,7 milljarða evra, eða um 1.350 milljarða króna, fyrir eftirstandandi 16% hlut í fyrirtækinu. Tilboðið hljóðar upp á 12 evrur á hlut, eða sem samsvarar 53% álagi á hlutabréfaverð EDF áður en ríkið tilkynnti áform um þjóðnýtingu.