Jakobsson Capital metur gengi bréfa Kviku á 27,5 krónur á hlut, sem er um 25% yfir markaðsgengi félagsins. Lækkar verðmatsgengið lítillega frá síðasta verðmati, þegar verðmatsgengið var 28,1 króna á hlut. Í greiningu Jakobsson Capital segir að við fyrstu sýn hafi afkoma Kviku virst undir væntingum en að nánar athuguðu máli hafi afkoman að mestu verið í samræmi við væntingar.

„Við sameiningu Kviku og TM varð til mikil óefnisleg eign. Sú eign var afskrifuð að hluta á fjórða ársfjórðungi eða um 300 m.kr. Samtals munu 5,7 ma.kr. af óefnislegum eignum verða afskrifaðar á næstu 5 til 20 árum. Einnig kom til einskiptiskostnaður vegna flutninga á rekstri TM upp á 400 m.kr.,“ segir m.a. í greiningu Jakobsson Capital.

Greinandi hafi hrokkið í kút er hann sá kostnaðartölur sem voru um 1,0 ma.kr. hærri en hann hafi reiknað með. „Það frávik virðist að langstærstum hluta vera framangreindar afskriftir og kostnaður vegna flutninga. Afskrift óefnislegra eigna hefur lítið að gera með rekstur og hvað þá með grunnrekstur að gera. Reikningar Kviku banka urðu um margt mjög undarlegir við sameininguna á TM vegna þeirrar miklu viðskiptavildar sem varð til. Eiginfjárhlutfall varð óvenjulega hátt og nær afbrigðilegt og nú koma til töluverðar afskriftir óefnislegra eigna sem lætur rekstur líta verr út en hann í raun og veru er.“

Næst rekur greinandi Jakobsson Capital að hagnaður Kviku banka árið 2021 eftir skatt hafi numið tæplega 10,7 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár verið 21,9% samkvæmt stöðu eigin fjár í lok fjórða ársfjórðungs. Það sé gríðarlega góður árangur þegar horft sé til þess að „raunverulegt“ eiginfjárhlutfall bankans var 31,8%. Hafa verði þó í huga að stór hluti eiginfjár sé tilkominn vegna óefnislegra eigna. Ef leiðrétt sé fyrir því sé eiginfjárhlutfall Kviku 21,4%. Eiginfjárhlutfall Kviku á áhættugrunni sé 33,8%. „Það er ljóst að sama hvernig fjárfestar mæla fjárhagslegan styrk Kviku. Hann er mikill, sama hvaða mælikvarði er notaður.“