Reykjavíkurborg óskaði eftir tilboðum í þrjár atvinnulóðir í haust og voru þau opnuð þann 17. nóvember. Alls bárust 19 tilboð í Lambhagaveg 12, sem er skammt frá Bauhaus. Heimilt byggingarmagn er 1.030 fermetrar en lóðin er 3.918 fermetrar. Hæsta tilboð var 80,5 milljónir króna, sem þýðir 78.155 krónur á byggðan fermetra. Gatnagerðargjöld eru innifalin í verðinu en þau eru 19.948 krónur á byggðan fermetra og eru bundin byggingarvísitölu.
Þetta er hæsta verð á hefðbundinni atvinnulóð í eigu Reykjavíkurborgar frá árinu 2008. Hæsta verð þar á undan var tilboð í Krókháls 7a í vor og var það 48.900 krónur á fermetra. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins gengu þau kaup ekki eftir. Tilboðið nú er því 60% hærra en verðið frá í vor. Hafa ber þó í huga að lóðir eru misjafnar að gæðum og lóðin Lambhagavegur 12 er stór í hlutfalli við heimilt byggingarmagn.