Nýskráningar hópferðabíla jukust um 37% milli áranna 2012 og 2015 og nýskráningar nýrra sendibíla um 235%. Hægt að rekja hluta þessarar aukningar til ferðaþjónustunnar því litlir sendibílar, eins og til dæmis Renault Kangoo, eru töluvert notaðir sem bílaleigubílar. Í fyrra voru nýskráðir 188 notaðir og nýir hópferðabílar samanborið við 137 árið 2012. Alls voru 1.744 nýir og notaðir sendibílar nýskráðir samanborið við 521 árið 2012.
Um 190% aukning hefur verið í nýskráningum vörubíla á þessu tímabili. Þá aukningu má líklega rekja til þess verktakageirinn hefur verið að taka við sér og fram undan eru mörg verkefni. Í fyrra voru nýskráðir 421 nýir og notaðir vörubílar samanborið við 145 árið 2012.
„Það var mikið flutt út af atvinnubílum og atvinnutækjum eftir hrun og því ekkert óeðlilegt að verið sé að flytja inn töluvert magn núna," segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning .