Við­skipta­jöfnuður Ís­lands við útlönd var neikvæður um 95,2 milljarða króna á fjórða árs­fjórðungi 2024, sam­kvæmt bráða­birgða­yfir­liti Seðla­banka Ís­lands.

Þetta er mun verri niður­staða en á þriðja árs­fjórðungi, þegar við­skipta­jöfnuðurinn var jákvæður um 52,3 milljarða, og einnig lakari staða en á sama tíma árið 2023 þegar hallinn nam 17,5 milljörðum króna.

Megin­orsök hallans á fjórða árs­fjórðungi var vöru­skipta­halli sem nam 104,1 milljarði króna. Þjónustujöfnuður var hins vegar jákvæður um 34,5 milljarða króna, en það er veru­leg lækkun frá fyrri fjórðungi þegar af­gangurinn nam 141,2 milljörðum.

Frumþátta­tekjur skiluðu einnig neikvæðri niður­stöðu, með 10,5 milljarða króna halla, ásamt rekstrar­fram­lögum sem voru neikvæð um 15,1 milljarð.

Við­skipta­halli jókst veru­lega á árinu

Fyrir árið 2024 í heild nam við­skipta­halli Ís­lands 116,8 milljörðum króna, saman­borið við 36,5 milljarða af­gang árið 2023. Halli á vöru­skiptum jókst um­tals­vert yfir árið og nam 314,5 milljörðum króna, en þjónustujöfnuður var jákvæður um 261,7 milljarða. Frumþátta­tekjur og rekstrar­fram­lög héldu áfram að draga úr heildarniður­stöðu.

Í til­kynningu Seðla­bankans kemur fram að nokkur óvissa ríki um fjár­magns­við­skipti á fjórðungnum vegna sölu „inn­lends iðn­fyrir­tækis til er­lendra aðila.“ Að öllum líkindum er hér átt við um kaup John Bean Technologies á Marel.

Sam­kvæmt Seðla­bankanum hafa þessi leitt til mikils fráviks í liðnum „Skekkjur og van­talið“, sem nam 175,7 milljörðum króna á fjórðungnum.

Gera má ráð fyrir að endur­skoðun gagna muni leiða til frekari skýringa á þessum tölum.

Jákvæð hrein staða þjóðar­búsins þrátt fyrir hallann

Þrátt fyrir hallann á við­skipta­jöfnuði batnaði hrein er­lend staða þjóðar­búsins og var jákvæð um 1.963 milljarða króna í lok fjórða árs­fjórðungs, sem nemur 42,5% af vergri lands­fram­leiðslu.

Er­lendar eignir landsins námu 6.549 milljörðum króna, á meðan skuldir stóðu í 4.586 milljörðum.

Gengi krónunnar styrktist um 3,5% á fjórðungnum, en verð á inn­lendum hluta­bréfa­markaði hækkaði um 16,3%.

Af gögnunum að ráða er ljóst að þrátt fyrir sterkari stöðu stendur ís­lenskt efna­hags­líf frammi fyrir áskorunum vegna viðvarandi halla­rekstrar í við­skiptum við útlönd.