Viðskiptajöfnuður Íslands við útlönd var neikvæður um 95,2 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2024, samkvæmt bráðabirgðayfirliti Seðlabanka Íslands.
Þetta er mun verri niðurstaða en á þriðja ársfjórðungi, þegar viðskiptajöfnuðurinn var jákvæður um 52,3 milljarða, og einnig lakari staða en á sama tíma árið 2023 þegar hallinn nam 17,5 milljörðum króna.
Meginorsök hallans á fjórða ársfjórðungi var vöruskiptahalli sem nam 104,1 milljarði króna. Þjónustujöfnuður var hins vegar jákvæður um 34,5 milljarða króna, en það er veruleg lækkun frá fyrri fjórðungi þegar afgangurinn nam 141,2 milljörðum.
Frumþáttatekjur skiluðu einnig neikvæðri niðurstöðu, með 10,5 milljarða króna halla, ásamt rekstrarframlögum sem voru neikvæð um 15,1 milljarð.
Viðskiptahalli jókst verulega á árinu
Fyrir árið 2024 í heild nam viðskiptahalli Íslands 116,8 milljörðum króna, samanborið við 36,5 milljarða afgang árið 2023. Halli á vöruskiptum jókst umtalsvert yfir árið og nam 314,5 milljörðum króna, en þjónustujöfnuður var jákvæður um 261,7 milljarða. Frumþáttatekjur og rekstrarframlög héldu áfram að draga úr heildarniðurstöðu.
Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að nokkur óvissa ríki um fjármagnsviðskipti á fjórðungnum vegna sölu „innlends iðnfyrirtækis til erlendra aðila.“ Að öllum líkindum er hér átt við um kaup John Bean Technologies á Marel.
Samkvæmt Seðlabankanum hafa þessi leitt til mikils fráviks í liðnum „Skekkjur og vantalið“, sem nam 175,7 milljörðum króna á fjórðungnum.
Gera má ráð fyrir að endurskoðun gagna muni leiða til frekari skýringa á þessum tölum.
Jákvæð hrein staða þjóðarbúsins þrátt fyrir hallann
Þrátt fyrir hallann á viðskiptajöfnuði batnaði hrein erlend staða þjóðarbúsins og var jákvæð um 1.963 milljarða króna í lok fjórða ársfjórðungs, sem nemur 42,5% af vergri landsframleiðslu.
Erlendar eignir landsins námu 6.549 milljörðum króna, á meðan skuldir stóðu í 4.586 milljörðum.
Gengi krónunnar styrktist um 3,5% á fjórðungnum, en verð á innlendum hlutabréfamarkaði hækkaði um 16,3%.
Af gögnunum að ráða er ljóst að þrátt fyrir sterkari stöðu stendur íslenskt efnahagslíf frammi fyrir áskorunum vegna viðvarandi hallarekstrar í viðskiptum við útlönd.