Bandaríska hlutabréfavísitalan S&P 500 hefur sveiflast umtalsvert frá opnun markaða vestanhafs í dag.

Vísitalan lækkaði verulega í fyrstu viðskiptum og hafði lækkað um meira en 4% þegar mest lét. Rúmum hálftíma síðar stóð hún í 5.221,7 stigum og hafði þá hækkað um tæp þrjú prósent frá lokun markaða í gær. Vísitalan stendur í 4.966 stigum þegar fréttin er skrifuð og hefur því lækkað um ríflega tvö prósent í dag.

Skyndileg hækkun á vísitölunni hefur verið rakinn til orðróms um að stjórnvöld hefðu til skoðunar um að taka tolla úr gildi í 90 daga. Í umfjöllun Bloomberg segir að svo virðist sem það hafi verið kveikjan fyrir hækkuninni en viðskiptamiðillinn lýsir orðróminn sem falsfrétt (e. fake news).

Sveiflur á bandaríska markaðnum fylgja verulegum lækkunum á hlutabréfamörkuðum í Asíu í nótt. Þá lækkaði Europe Stoxx 600 vísitalan talsvert í morgun en hefur aðeins rétt úr kútnum eftir opnun markaða vestanhafs.

Lækkanir eru raktar til nýrra tolla bandarískra stjórnvalda sem Donald Trumps Bandaríkjaforseta tilkynnti um í síðustu viku. Hann sagðist í gærkvöldi ætla að halda sínu striki þrátt fyrir miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum.

„Hvað er að fara að gerast á mörkuðum? Ég get ekki sagt til um það,“ sagði Trump í gærkvöldi. „Ég vil ekki að neitt fari niður. En stundum verður maður að taka lyf til að laga eitthvað.“