Míla hefur komið á varasambandi um lágsporbrautargervihnattasamband á Skagaströnd til að tryggja að neyðarsímtöl geti borist af svæðinu ef ljósleiðaraslit á sér stað. Skagaströnd er eitt þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem eru eintengd með einum ljósleiðarastreng.

Í tilkynningu segir að nýlega hafi tengingin slitnað tvisvar sinnum í vondu veðri og í kjölfarið var samfélagið nánast skilið frá nútímanum.

Nýja lausnin byggir á lágsporbrautargervihnattarsamskiptum og er sagður vera mikilvægur áfangi í að tryggja öryggi og stöðugleika fjarskipta á svæðinu. Samskipti um gervihnetti séu þó takmörkuð og eiga erfitt með að veita mikla bandbreidd, jafnvel þó að svartíminn sé góður þegar gervihnettirnir eru á lægri sporbraut.

Sveitarstjóri Skagastrandar, Alexandra Jóhannesdóttir, lagði áherslu á mikilvægi þessa verkefnis og segir þetta gríðarlega mikilvægan áfanga fyrir samfélagið.

„Nú erum við ekki lengur háð einum streng varðandi fjarskipti á svæðinu sem styrkir öryggi íbúa Skagastrandar. Það er nauðsynlegt að fá hið opinbera með okkur í lið til að klára tvítengingu ljósleiðara og erum við í góðu samtali við innviðaráðuneytið vegna þessa máls.“

Forstjóri Mílu, Erik Figueras Torras, segist ánægður með útkomuna: „Þökk sé lágsporbrautargervihnattasambandi hefur Skagaströnd nú fengið lausn sem tryggir bæði öryggi og framtíðarsýn í fjarskiptum.“