Gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center hagnaðist um 11,2 milljónir dala á síðasta ári, sem nemur rúmum 1,5 milljörðum króna, samanborið við 1,25 milljarða hagnað árið áður. Tekjur jukust um 16% milli ára, námu 47,6 milljónum dala, sem nemur 6,6 milljörðum króna.

Borealis rekur gagnaver á Blönduósi, Fitjum í Reykjanesbæ og á Korputorgi í Reykjavík. Fjórða gagnaverið bættist við á þessu ári, þegar gengið var frá kaupum á gagnaveri í Kajaani í Norður-Finnlandi.

Heildareignir Borealis í árslok námu 74,9 milljónum dala, sem nemur 10,2 milljörðum króna. Eigið fé í árslok var helmingi meira en árið áður, nam 31,4 milljónum dala, sem nemur 4,3 milljörðum króna.

Core Infrastruture III Sarl, félag í eigu franska fjárfestingasjóðsins Vauban Infrastructure partners, keypti 92,18% hlut í Borealis árið 2021. Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis, fer fyrir félögin Impulse ehf og D23 ehf sem eiga samtals 7,82% hlut.

Í september síðastliðnum var greint frá samstarfsverkefni Borealis við Modularity, bandarísks félags sem sérhæfir sig í þróun neðansjávar fjarskipta- og gagnastrengja, um lagningu neðansjávar fjarskiptasæstrengja frá Bandaríkjunum til Íslands og svo streng frá Íslandi til Evrópu.

Félögin segja verkefnið til þess fallið að bjóða upp á gagnaversþjónustu fyrir stór verkefni á sviði gervigreindar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.