Lagerinn Iceland ehf., móðurfélag Jysk, áður Rúmfatalagersins, og húsgagnaverslunarinnar Ilvu, hagnaðist um tæplega 1,7 milljarða króna á síðasta fjárhagsári, sem náði yfir tímabilið 1. mars 2023 til 28. febrúar 2024. Til samanburðar nam hagnaðurinn 1.452 milljónum króna árið áður.

Eignir Lagersins Iceland námu 11,9 milljörðum króna í lok tímabilsins samanborið við 8,2 milljarða króna eignir árið áður. Munar þar mestu um 2,5 milljarða króna aukningu eignarhluta í dótturfélögum. Bókfært eigið fé Lagersins Iceland ehf. var 11,9 milljarðar króna í lok síðasta rekstrarárs samanborið við 8,2 milljarða króna árið áður.

Megnið af hagnaði síðasta rekstrarárs kom frá Rúmfatalagernum ehf., sem hagnaðist um tæplega 1,4 milljarða króna á tímabilinu samanborið við 1,2 milljarða króna hagnað árið áður. Hagnaður Ilvu dróst saman úr 35 milljónum króna í 22 milljónir milli ára.

Fjárfestingafélagið Rif 3 ehf., sem er í eigu Lagersins Iceland og á og rekur verslunarhúsnæði, hagnaðist um 156 milljónir króna samanborið við 139 milljónir árið áður. Bókfært verð fasteignar Rifs 3 nam 3 milljörðum króna í lok árs.

Þá bættist við móðurfélagið á árinu 99% eignarhlutur í eignarhalds- og fjárfestingarfélaginu SMI ehf., sem skilaði 120 milljóna króna hagnaði.

Lagerinn Iceland ehf. undirritaði nýverið viljayfirlýsingu við Reiti um kaup á lóðum á Korputúni, þar sem gert er ráð fyrir ríflega sautján þúsund fermetra byggingarmagni. Á lóðunum hyggst félagið byggja nýjar höfuðstöðvar ásamt vöruhúsi og verslun fyrir JYSK.

Lóðirnar tilheyra nýju atvinnuhverfi sem rísa mun við Vesturlandsveg á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið tilheyrar Blikastaðalandi í Mosfellsbæ þar sem fyrirhuguð er umfangsmikil uppbygging nýs íbúðahverfis.