Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að taka til skoðunar kaup Novo Nordisk holdings, móðurfélags lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk, á lyfjaframleiðandanum Catalent.
Móðurfélagið keypti lyfjaframleiðandann á 114 milljarða danskra króna og seldi síðan þrjár verksmiðjur Catalent til Novo Nordisk á 76 milljarða danskra króna.
Markmiðið með yfirtökunni var að reyna auka framleiðslugetu Novo Nordisk á þyngdarstjórnunarlyfjunum Ozempic og Wegovy en gríðarleg eftirspurn er eftir lyfjunum á heimsvísu.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsenmun framkvæmdastjórn ESB skila úrskurði um málið 6. desember næstkomandi.
Framkvæmdastjórnin, sem sér um samkeppniseftirlit innan Evrópusambandsins, mun annaðhvort samþykkja kaupin með eða án kröfu um breytingar eða hefja fjögurra mánaða rannsókn á kaupunum hafi þau miklar áhyggjur af viðskiptunum.
Höfuðstöðvar Catalent eru í New Jersey í Bandaríkjunum og hafa neytendasamtök vestanhafs og þingmenn í Bandaríkjunum krafist þess að yfirvöld stígi inn og stöðvi yfirtökuna.
Að þeirra mati hamlar yfirtakan samkeppni á þyngdarstjórnunarlyfjamarkaðinum en áköll en þrýstingur um að yfirtakan verði stöðvuð kemur frá bandarískum samkeppnisaðilum Novo Nordisk, Roche og Eli Lily.
Emily Field, sérfræðingur sem starfaði um árabil hjá Bandaríska viðskiptaráðinu (FTC), sagði nýverið á opnum fundi á vegum Barclays banka að hún telji líklegt að FTC muni hafa afskipti af viðskiptunum.
„Það er þó erfitt að greina stöðuna við ákvörðun FTC sem verður byggð á upplýsingum sem eru ekki aðgengilegar fyrir almenning,“ sagði Field.
Hún telur þó ólíklegt að viðskiptin verði stöðvuð en það verði líklegast gert allt til að hægja á ferlinu.
Samkvæmt sérfræðingum sem Børsen ræddi við er FTC að hafa áhyggjur af framleiðslugetu allra þriggja félaganna á þyngdarstjórnunarlyfjum næstu þrjú árin og hvaða áhrif það muni hafa á verð slíkra lyfja.