Magnús Sverrir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental, segir að fyrirtækið hafi keypt minna af nýjum bílum í ár og býst jafnframt við enn minni kaupum á næsta ári.

„Við keyptum aðeins minna í ár sökum mikilla kaupa á síðasta ári en það eru líka of margir bílar atvinnulausir miðað við ástandið núna,“ segir Magnús í samtali við Viðskiptablaðið.

Bílaleigur hér á landi skráðu helmingi færri nýja fólksbíla í júlí heldur en í sama mánuði í fyrra, eða 326 samanborið við 665 fyrir ári, samkvæmt tölfræði sem Bílgreinasambandið greindi frá í morgun. Það sem af er ári hafa verið skráðir 4.439 nýir fólksbílar á ökutækjaleigu samanborið við 6.259 á sama tímabili fyrir ári sem er samdráttur upp á 29,1%.

Magnús segir að undanfarin þrjú ár hafi Blue Car Rental keypt mikið af bílum og er bílaleigan því vel stödd þegar kemur að framboði. Það verða þó breytingar á kauphegðun fyrir bílaleigur bæði í ár og á næsta ári.

„Þetta leit allt betur út í byrjun árs en raun ber vitni. Ég held að flestar skráningar í ár voru í raun fleiri en hefðu átt að vera, þannig ég hugsa að höggið á sölu nýrra bíla verði jafnvel meira á næsta ári,“ segir Magnús.