Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, hagnaðist um 1,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, sem er 32% samdráttur frá sama tíma í fyrra þegar félagið hagnaðist um 2,2 milljarða. Velta félagsins nam 35 milljörðum, sem er 30% aukning á milli ára, og hefur aldrei verið meiri, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

„Rekstur félagsins gekk ágætlega á þriðja ársfjórðungi,“ segir í tilkynningunni. „Mikil aukning erlendra ferðamanna en færri Íslendingar að ferðast um landið einkenndu allan fjórðunginn. Góð magnaukning var á öllum sviðum rekstrar en gríðarleg hækkun hrávöruverða hafði mikil áhrif á framlegðarstig sem lækkaði um 5,3 [prósentustig] milli ára.“

Afkoma N1 var 356 milljónum verri en árið áður en neikvæður mismunur í hagnaði olíuvarna milli ára nemur 192 milljónum. Afkoma Elko var 38 milljónum betri en árið áður og afkoma Krónunnar svipuð.

Fram kemur að á grunni afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi og mati stjórnenda á horfum út árið þá hafi félagið hækkað EBITDA spá sína fyrir árið um 200 milljónir í 10,0-10,4 milljarða.

Rekstrargjöld Festi á þriðja fjórðungi námu ríflega 4 milljörðum króna, sem er um 13% aukning á milli ára. Laun og annar starfsmannakostnaður jókst um 20%, úr 2,75 milljörðum í 3,31 milljarð, á milli ára en stöðugildum fjölgaði um 110. Tvær samningsbundnar tóku gildi í janúar og apríl síðastliðnum sem höfðu 131 milljónar áhrif til hækkunar og svo var gjaldfærður 76 milljóna kostnaður vegna starfsloka Eggerts Þórs Kristóferssonar, fyrrum forstjóra félagsins.

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi:

„Rekstur félagsins á þriðja ársfjórðungi gekk ágætlega og var í takt við áætlanir félagsins. Vörusala jókst um 29,9% miðað við sama tímabil og í fyrra og nam 35.146 millj. kr. Veltan er sú hæsta sem félagið hefur náð í einum ársfjórðungi frá upphafi.

Góð magnaukning var á öllum sviðum rekstrar en mikil hækkun hrávöruverða milli ára hafði töluverð áhrif, sérstaklega í eldsneytishluta rekstrarins, sem lækkaði framlegðarstig heilt yfir um 5,3 p.p. milli ára. EBITDA félagsins nam 3.067 millj.kr. sem er 279 millj.kr verri afkoma en í sama fjórðungi árið áður.

Ljóst er að félagið er í miklum vexti m.a. með opnun nýrra verslana, dekkjaverkstæða og fjölgun veitingastaða. Starfsfólki fjölgaði um 110 stöðugildi milli ára sem skýrir að hluta hækkun launakostnaðar en einnig er tímabundinn viðbótarkostnaður að falla til vegna nýfjárfestinga á fjórðungnum.

Heilt yfir erum við sátt með þann árangur sem náðist og er EBITDA spá félagsins fyrir árið 2022 hækkuð um 200 millj. kr. eða í 10.000 – 10.400 millj. kr.“