Talsverður munur er á launum stjórnar- og stjórnarformanna eftir tegund fyrirtækja samkvæmt nýrri samantekt Attentus og PwC á Íslandi. Tekin voru saman stjórnarlaun skráðra félaga, ríkisfyrirtækja og lífeyrissjóða en alls var 41 fyrirtæki tekið fyrir í samantektinni, þar af 25 skráð félög, 6 ríkisfyrirtæki og 10 lífeyrissjóðir. Upplýsingarnar voru fengnar úr ársskýrslum fyrirtækjanna fyrir árið 2023, sem og öðrum opinberum gögnum þeirra.

Samkvæmt samantektinni voru árslaun stjórnarformanna að meðaltali 11 milljónir króna en miðgildi árslauna var 10 milljónir. Efri fjórðungsmörk voru 12 milljónir króna en þar af voru 10% með 20 milljónir eða meira í árslaun. Neðri fjórðungsmörk voru 7 milljónir króna en 10% voru með árslaun upp á 3 milljónir króna eða minna.

Stjórnarformenn skráðra félaga voru með hæstu árslaunin, þar sem miðgildi launa var 12 milljónir en neðri fjórðungsmörk voru 10 milljónir og efri fjórðungsmörk 13 milljónir. Næst koma ríkisfyrirtækin en miðgildi árslauna var 4 milljónir króna á meðan neðri fjórðungsmörk voru 3 milljónir og efri fjórðungsmörk 6 milljónir. Loks var miðgildi árslauna hjá lífeyrissjóðunum 4 milljónir, neðri fjórðungsmörk voru 3 milljónir og efri fjórðungsmörk 6 milljónir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.