Top ehf. vinnur nú að kaupum á öllu hlutafé bílaleigunnar Lotus og fékk í dag samþykki Samkeppniseftirlitsins (SKE) fyrir kaupunum. Top er eignarhaldsfélag sem á meðal annars Bílaumboðið Öskju sem og Sleggjuna sem er dótturfélag Öskju. Það var fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem leiddi viðskiptin.
„Félagið hyggst með þessu efla stoðir Top en ásamt Öskju þá er Top eigandi að Sleggjunni sem er sölu- og þjónustumboð fyrir Mercededs-Benz og Setra vöru- og hópferðabíla,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju og Top.
Stofnuðu Lotus beint eftir Verzló
Alexander Haraldsson og Guðmundur Hlífar Ákason stofnuðu bílaleiguna Lotus Car Rental árið 2014. Þeir voru þá 19 ára að aldri og stunduðu nám við Verzlunarskóla Íslands. Alexander og Guðmundur Hlífar munu starfa áfram hjá Lotus og verða áfram hluthafar í félaginu.
Lotus er með rúmlega 600 bíla í sínum rekstri og gert er ráð fyrir að flotinn verði svipaður og hefur verið. Í ákvörðun SKE segir að markaðshlutdeild Lotus sé um 2,5%. Lotus leigir bíla út frá starfsstöð sinn í Reykjanesbæ og leigir allt frá smábílum yfir í fjórhjóladrifna jeppa.
Styðja við reksturinn og dreifa áhættu
„Top kemur þarna inn sem kjölfestufjárfestir í félaginu og markmiðið með kaupum er að styðja við reksturinn og dreifa áhættu en rekstur bílaumboðs og bílaleigu er ólíkur að mörgu leyti, þó svo að bílar og flutningatæki séu í lykilhlutverki í öllum þessum félögum. Fyrirtækin eiga það sammerkt að vilja veita góða þjónustu með góða vöru,“ segir Jón Trausti.
Stærstu eigendur Top ehf. eru hjónin Hjörleifur Jakobsson og Hjördís Ásberg með 47,1% og Frosti Bergsson með 19,8%. Aðrir hluthafar eru Egill Ágústsson, Jón Trausti og franska fyrirtækið Groupe Comte-Serres (GCS).
Lotus var í 40% eigu stofnendanna Alexanders og Guðmundar Hlífars á móti 60% hlut Einibrekku, félags í eigu Jóns Axels Ólafssonar og Kristjáns Arnar Sigurðssonar.