Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody's Investors Service hefur uppfært lánshæfismat Arion banka sem útgefanda óveðtryggðra skuldabréfa úr Baa1 í A3. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Moody's hækkaði einnig lánshæfismat langtíma og skammtímainnlána úr A3/P-2 í A2/P-1. Horfum var jafnframt breytt úr jákvæðum í stöðugar.
„Uppfærsla lánshæfismatsins endurspeglar hve vel bankanum hefur gengið á síðustu 18 mánuðum að viðhalda góðri arðsemi, sterkri eiginfjárstöðu og góðum eignagæðum, auk aukinnar áherslu á samþættingu banka- og tryggingastarfsemi,” segir í Kauphallartilkynningu.
„Sú einkunn sem Moody‘s gefur Arion banka í tengslum við áhættu tengdri umhverfis- og samfélagsþáttum og stjórnarháttum hækkar einnig, úr G-3 í G-2. Er það mat Moody‘s að áhætta vegna stjórnarhátta sé lág í ljósi bættrar fjárhagsstefnu bankans og áhættustýringar.”
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti í mars á þessu ári BBB lánshæfismat Arion banka til langs tíma en breytti horfum úr stöðugum í neikvæðar.
Samkvæmt áhættumati S&P frá því í byrjun sumars hefur áhætta í efnahagsumhverfi hérlendis aukist vegna vaxtastigs og hækkun á fasteignaverði.