Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann muni leggja 50% toll á Brasilíu en samhliða því hefur hann sakað brasilísk yfirvöld um ósanngjarna aðför gegn Jair Bolsonaro, fyrrum forseta Brasilíu og pólitískum bandamanni Trump.

Samkvæmt fréttaflutningi New York Times má búast við að hæstiréttur Brasilíu dæmi Bolsonaro fyrir valdaránstilraun en hann neitaði að viðurkenna kosninganiðurstöður árið 2022 þar í landi sem leiddi til þess að þúsundir stuðningsmanna hans réðust á þinghús landsins.

Trump skrifaði í færslu á samfélagsmiðlum fyrr í vikunni að dómsmálið væri ekkert annað en aðför gegn pólitískum andstæðingi og skrifaði í hástöfum að það ætti að láta Bolsonaro í friði.

Luiz Inácio Lula da Silva forseti Brasilíu var fljótur að svara og sagði að það væri óábyrgt af forseta að hóta öðrum á samfélagsmiðlum og bætti við að Trump ætti að vita að heimurinn vilji ekki keisara.

Ákvörðun Trumps um tollaaukningu virðist sýna hvernig persónulegar deilur hans geta haft áhrif á utanríkisstefnu þjóðarinnar. Bandaríkjamenn voru til að mynda með 650 milljóna dala jákvæðan viðskiptajöfnuð við Brasilíu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.