Elon Musk hét því á fundi með starfsmönnum banka sem koma að fjármögnun á yfirtöku hans á Twitter í gær að hann myndi ljúka kaupunum fyrir lok föstudags, samkvæmt heimildum Bloomberg.

Fregnirnar gefa merki um að Musk sé við það að ljúka viðskiptunum áður en frestur dómstóls í Delaware rennur út á föstudaginn næsta, 28. október. Hlutabréf Twitter tóku stökk eftir að fréttin fór í loftið en félagið hefur hækkað um nærri 3% í dag.

Umræddir bankar, sem reiða fram 13 milljarða dala lánsfjármagn eða sem nemur 1.865 milljörðum króna, hafa lagt lokahönd á lánssamninginn. Verið er að ganga frá undirritun allra skjala áður en lánsfjárhæðin verður millifærð á Musk.

Morgan Stanley leiðir fjármögunarferlið af hálfu bankanna. Auk Morgan Stanley leggja Bank of America, Barclays og MUFG hver fram meira en 20% af lánsfjárhæðinni.

Musk náði samkomulagi um að kaupa Twitter fyrir 44 milljarða dala í apríl síðastliðnum en reyndi síðar að falla frá kaupunum og bar fyrir sig að samfélagsmiðillinn hefði ekki gefið upp nægjanleg gögn um fjölda gervireikninga.

Stjórn Twitter höfðaði í kjölfarið mál við Musk og fór fram á að hann myndi standa við kaupsamninginn. Til stóð að réttarhöld myndu hefjast 17. október. Í byrjun mánaðarins bauðst Musk hins vegar aftur til að kaupa Twitter á þeim kjörum sem upphaflega var samið um og fékk því aukinn frest til að ganga frá viðskiptunum.