Hagnaður Tesla á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 16% milli ára, samkvæmt árshlutauppgjöri sem rafbílaframleiðandinn birti í gærkvöldi.

Heildartekjur félagsins drógust saman um 12% milli ára og námu 22,5 milljörðum dala á fjórðungnum. Tekjur af sölu rafbíla drógust saman um 16%. Tesla sagði að rekja mætti samdráttinn að mestu til minni sölu ásamt því að tekjur af sölu kolefnisheimilda drógust saman.

Elon Musk, forstjóri Tesla, sagði á uppgjörsfundi að félagið áformi að gefa út ódýrari útgáfu af Model Y jepplingnum og að stefnt sé að því að víkka verulega út starfsemi félagsins á sviði sjálfkeyrandi leigubíla í ár.

„Við erum á skrítnu umbreytingartímabili þar sem við munum missa mikið af [skattalegum] hvötum í Bandaríkjunum,“ hefur WSJ eftir Musk sem vísaði þar til þess að skattaafsláttur stjórnvalda til að styðja við sölu rafbíla sé að minnka að umfangi.

„Við gætum sennilega átt nokkra erfiða ársfjórðunga framundan. Ég er ekki að segja að það muni gerist, en það gæti gerst.“

Musk bætti þó við að hann geri ráð fyrir að sjálfkeyrandi bifreiðar muni styðja við fjárhag félagsins fyrir lok þessa árs.

Hlutabréfaverð Tesla hefur fallið um 6% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.