Elon Musk sagði á orkumálaráðstefnu í Stavanger í Noregi í dag að auka þyrfti framleiðslu á olíu og gasi. Auk þess ætti að halda áfram rekstri kjarnorkuvera. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal, en ráðstefnan er haldin dagana 29. ágúst til 1. september.

„Ég tel að við þurfum í raun meira af olíu og gasi, ekki minna, en á sama tíma að færa okkur eins hratt og við getum yfir í sjálfbæra orkuframleiðslu,“ sagði Elon Musk, forstjóri Tesla, á ráðstefnunni.

Sjá einnig: Vill aukna kjarnorkuframleiðslu

Musk, sem hefur áður kallað eftir því að Evrópa vindi ofan af áætlunum um að loka kjarnorkuverum, lýsti sig auk þess sem „pronuclear“ á ráðstefnunni eða sem stuðningsmann kjarnorkuframleiðslu.

„Við ættum að halda áfram með kjarnorkuver. Þetta gæti verið óvinsæl skoðun, en ég tel að það séu ekki forsendur fyrir því að loka kjarnorkuverum sem eru vel hönnuð.“

Á ráðstefnuna mætti fjölbreyttur hópur fólks sem kemur að orkumálum í Evrópu. Þar má nefna æðstu stjórnendur olíufyrirtækja, orkusérfræðinga og embættismenn.

Alþjóðleg orkukrísa hefur keyrt upp verð á jarðgasi og raforku í heimshagkerfinu og hafði innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu ekki síst mikil áhrif á orkuframboðið í heiminum. Þannig spáir Citigroup tæplega 19% verðbólgu í Bretlandi í byrjun næsta árs og er sú spá aðallega byggð á ört hækkandi gasverði.