Það var margt um manninn á Bryggjunni Brugghúsi í gærkvöld þegar hugbúnaðarfyrirtækið Crayon hélt sérstaka Bryggjuleika.
Crayon á Íslandi er hluti af Crayon Group sem er alþjóðlegt upplýsingatæknifyrirtæki með rúmlega 4000 starfsmenn, með 50 skrifstofur í 40 löndum. Fyrirtækið hóf starfsemi hérlendis árið 2014.
„Leikarnir eru árlegur viðburður þar sem Crayon á Íslandi býður til sín helstu viðskiptavinum og samstarfsaðilum. Hugmyndin er að skapa vettvang á hverju hausti og tilefni til að hittast þegar hjólin í atvinnulífinu fara aftur að snúast eftir sumarfrí. Í gegnum árin hefur heiti viðburðarins borið keim af þeim stað þar sem þeir eru haldnir hverju sinni,“ segir Nanna Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Crayon.
Að sögn Nönnu hefur fyrirtækið vaxið og dafnað með hverju ári en viðskiptavinir þess hérlendis eru meðal stærstu fyrirtækja og stofnana landsins. Crayon sérhæfir sig í þróun og ráðgjöf stafrænna lausna og segist nýta sér þekkingu og reynslu liðsmanna til að hámarka virði til viðskiptavina.
Eyþór Ingi skemmti fólki af sinni alkunnu snilld með söng og eftirhermum og það var glaður hópur sem hélt heim á leið eftir góða skemmtun.