Unnur Elva Arnardóttir, forstöðumaður hjá Skeljungi, var valinn nýr formaður Félags kvenna í atvinnulífinu á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Nauthóli miðvikudaginn 10. maí. FKA fagnar 25 ára afmæli sínu á næsta ári og eru stjórnarkonurnar Guðrún Gunnarsdóttir og Dóra Eyland hálfnaðar með kjörtímabil sitt í stjórn.
„Ég þakka traustið sem mér er sýnt nú þegar ég tek við keflinu sem formaður FKA. Ég heiti því að vinna áfram að öflugu félagsstarfi í þágu ykkar FKA kvenna allra og hlakka til að hefja nýtt starfsár að sumri loknu. Ég mun áfram vinna að fjölbreytileika og framsækni félagskvenna meðal atvinnulífsins og halda framtíðarsýn og gildum FKA á lofti,“ segir Unnur.

Í stjórnendahópinn bætast:
Andrea Ýr Jónsdóttir, framkvæmdastjóri & hjúkrunarfræðingur.
Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir, mannauðs og skrifstofustjóra.
Erla Björg Eyjólfsdóttir hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Cohn & Wolfe á Íslandi, stundakennara Háskólanum á Bifröst og stjórnarkonu í Menntasjóði Námsmanna.
Grace Achieng, stofnandi & framkvæmdastjóri Gracelandic.
Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóra GET Ráðgjafar ehf.
Helga Björg Steinþórsdóttir, stofnandi, stjórnarformaður og eigandi.
Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri, hundaræktandi & eigandi

Að þessu sinni voru kosnar þrjár konur í aðalstjórn til tveggja ára. Sú kona sem lenti í fjórða sæti eftir atkvæðatalningu tók sæti í aðalstjórn til eins árs og þrjár konur voru kosnar í varastjórn til eins árs. Í varastjórn veljast þær þrjár konur sem næst því komust að hljóta kosningu í stjórn.

Niðurstaða kosningarinnar var sú að Grace Achieng, Andrea Ýr Jónsdóttir og Helga B. Steinþórsdóttir voru kjörnar í stjórn FKA til tveggja ára. Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir var kjörin í stjórn FKA til eins árs. Þá þurfti hlutkesti kjörnefndar sem réð úrslitum í varastjórn þar sem Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir og Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir voru jafnar stigum. Varastjórn er sem hér segir: Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir er fyrsta varakona inn í stjórn, næst er Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir og síðan Erla Björg Eyjólfsdóttir.

„Það er mikið dagskrárvald sem stjórn hefur og oft er það formaður FKA sem skapar ásýnd félagsins þar sem hún er oft í forsvari og kemur gjarnan fram fyrir hönd félagsins. Ég er þeirra gæfu aðnjótandi að fá að kynnast mjög ólíkum konum sem eru í félaginu um land allt og það hafa formenn félagsins sannarlega verið. Mitt hlutverk sem framkvæmdastjóri er að vinna fyrir stjórn, þjónusta félagskonur og vera virk í hreyfiaflsverkefnum FKA svo eitthvað sé nefnt. Ég hef sérstaklega gaman að því að leggja mitt á vogaskálarnar þannig að samfélagið njóti sérfræðiþekkingar og reynslu kvenna og þjónusta atvinnulífið. Unnur Elva hefur verið varaformaður og spennandi að sjá hana taka við sem formaður á spennandi tímum með 25 ára afmælisár FKA handan við hornið,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA brosandi og bætir við:
„Helvítis kærleikurinn“ var frasi sem við Sigga fráfarandi formaður notuðum gjarnan til að mætast með okkar ólíku sjónarhorn og skoðanir og það má stóla á ferskar og brakandi áskoranir næstu misserin bara svona eins og lífið er. Það er margt að taka á kassann víða en það er mikilvægt að fagna því sem gengur vel og vel er gert. Hreyfiaflsverkefni FKA hafa til dæmis slegið hvet metið á fætur öðru, um þrjúhundruð konur kusu í stjórnarkjörinu núna sem er frábært. Landabyggðadeildir springa út og þeim fer fjölgandi og erum við til dæmis með stofnfund FKA Austurland 25. maí nk. Alþjóðastarf hefur verið afar blómlegt og framundan er afmælisárið þannig að ég hvet konur til að skrá sig í FKA og fjárfesta þannig í sér.“