Íslenska sprotafyrirtækið Beedle býr til námskerfi sem er aðgengilegt í gegnum Microsoft Teams, en með kerfinu geta kennarar sinnt öllum kimum kennslunnar í gegnum Teams, sett inn námsefni, skráð mætingu og leiðbeint nemendum. Yfir 200 milljónir notenda nýta Microsoft skólalausnir á heimsvísu og er Beelde með notendur í yfir 80 löndum, en fyrirtækið var nýverið valið í hóp 200 efnilegustu menntasprota í heimi.
„Ég var að vinna hjá öðru menntatæknifyrirtæki og fékk þá hugmynd að þróa námskerfi í takt við nútímann. Mig langaði til að finna út hvernig við gætum unnið meira með Microsoft og gert lausnina aðgengilega út um allan heim og skalanlega," segir Guðmundur Axelsson, tæknistjóri og einn stofnenda Beedle. Hann starfaði sem yfirmaður í þróunarteymi hjá Microsoft á árunum 2009-2016, fyrst í Seattle og svo frá Íslandi.
Guðmundur og Beedle-teymið sóttu Bett Show ráðstefnuna í London, sem er stærsta ráðstefna í heiminum fyrir menntatækni, og sýndu þar námskerfið fyrir hópi fjárfesta og fyrirtækja. Lausnin sló í gegn og var meðal þeirra vinsælustu á ráðstefnunni. Microsoft sótti ráðstefnuna og sýndi Beedle mikinn áhuga, og í kjölfarið fór boltinn að rúlla. Fjárfestar fóru að sýna fyrirtækinu aukinn áhuga og teymið stækkaði smám saman, segir Guðmundur.
Faraldurinn flýtti fyrir þróuninni
Guðmundur segir að faraldurinn hafi hvatt einstaklinga og fyrirtæki til að þróa lausnir fyrir fjarkennslu. „Okkar lausn er viðbót við Microsoft Teams. Skólar sem nota Teams í kennslu nota það fyrir fyrirlestra, en það sem við komum með að borðinu er allt hitt sem við kemur kennslunni, til að mynda einkunnagjöf og mætingaskrá." Guðmundur bendir á að með því að nota Beedle sem viðbót við Teams geti kennarar notað sama kerfið í kennslunni, allan daginn og alla önnina, hvort sem um fjarkennslu eða staðbundna kennslu er að ræða.
Guðmundur segir fyrirtækið standa á ákveðnum tímamótum. „Hingað til hefur aðaláhersla okkar frábæra teymis verið þróun vörunnar en nú erum við einnig að fara á fullt með allsherjar markaðssetningu á lykilmarkaðssvæðum. Einnig erum við að bæta við okkur mannskap í þróunarteymið á Íslandi."
Eitt af 200 efnilegustu menntasprotum heims
Beedle var nýverið valið í hóp 200 efnilegustu sprotafyrirtækja í menntatækni í heiminum og keppir um eina milljón dala í verðlaunafé í San Diego í Kaliforníu í byrjun apríl. Fyrirtæki sem eru valin í hópinn eru talin álitlegustu sprotafyrirtækin á sviði stafrænnar menntunar á öllum stigum menntakerfisins. Beedle hlaut einnig sæti í undanúrslitum The GSV Cup sem er stærsta lyftukynningakeppni í heimi fyrir fyrirtæki í menntatækni.
Guðmundur segir að fókus Beedle hafi ávallt verið á grunnskólastiginu, en hjá fyrirtækinu starfa fjölmargir kennarar við hönnun námskerfisins. „Þó svo að Beedle sé hannað með grunnskólakennslu í huga erum við með notendur á öllum námsstigum og ekkert sem stöðvar framhaldsskóla og háskóla að nota lausnina." Hann segir Beedle-námskerfið einstakt að því leyti að það er hannað sem hrein viðbót við Teams. „Við byggjum ofan á þeim grunni og Microsoft sér um helstu öryggismál, innskráningar og hýsingu gagna. Við sleppum því við umfangsmikinn stofnkostnað og getum einbeitt okkur að þróun lausna fyrir nútíma kennslu, allt inni í Teams."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .