Fjarskiptafélagið Nova var skráð í Kauphöllina í júní að loknu 8,7 milljarða króna frumútboði þar sem 44,5% hlutur í félaginu var seldur. Upphaflega stóð til að selja 37% hlut en að loknu útboðinu nýtti stjórn Nova heimild til að stækka útboðið um fimmtung.
Stækkun útboðsins var umdeild en sumum fannst eftirspurnin ekki gefa tilefni fyrir stækkun, sérstaklega í ljósi þess að fagfjárfestar skráðu sig ekki fyrir stærri hlut. Stækkunin var öll í þágu A-bókar, þ.e. fyrir tilboð undir 20 milljónum, en þreföld eftirspurn var í þeim flokki. Áskriftir í B-hluta voru rétt ríflega yfir auglýsta hluti í þeim flokki.
Stærsti hluthafi Nova, Pt. Artic Fund, sjóður í stýringu bandaríska fjárfestingarfélagsins Pt. Capital, seldi meira en þriðjungshlut í útboðinu. Hugh Short, stjórnarformaður Nova og forstjóri Pt. Capital, segir að gagnrýnin eigi rétt á sér og að hann beri ábyrgð á ákvörðuninni.
„Hún var annars vegar byggð á þeirri staðreynd að ég sem framkvæmdastjóri sjóðsins starfa í umboði og þágu sjóðfélaga. Ég hef verið að funda með nýjum hluthöfum Nova til að koma því á framfæri,“ segir Hugh. Í viðtalinu minnist hann einnig á hluthafar sjóðsins hafi fundist eignarhluturinn í Nova full veigamikill í eignasafninu.
„Hins vegar var næg eftirspurn í útboðinu. Áskriftir samsvöruðu tvöföldu framboði. Það kann að vera að stækkun frumútboða sé ekki venjubundin framkvæmd á Íslandi en staðreyndin er sú að fólk skráði sig fyrir þessum hlutum.“
Jakkafataklæddir fjármálastjórar dansi ekki í kringum diskókúlurnar
Spurður nánar út í gagnrýnina þá segir Hugh að Nova sé frábrugðið flestum fyrirtækjum í Kauphöllinni. Áhersla á góða þjónustu leiði af sér persónulegt samband við Nova og tilheyrandi áhuga einstaklinga á félaginu sem fjárfestingarkost.
„Nova hefur notið mikillar velgengni þar sem félagið er með bestu þjónustuna. Starfsmenn hafa einnig ítrekað sagt að við séum með besta vinnustaðinn. Fyrir vikið hafa einstaklingar mikinn áhuga á að fjárfesta í félaginu.
Á móti kemur má segja að stór hópur stofnanafjárfesta og hefðbundinna fjárfesta þekki félagið í raun ekki. Fyrri eigandinn [Novator] átti ekki í miklum samskiptum við íslenska fjármálageirann. Sú staðreynd að mikil umframeftirspurn var í A-bókinni en ekki í B-bókinni var ekki mjög óvænt.“
Þú varst þá ekki hissa að lífeyrissjóðirnir hafi ekki skráð sig fyrir stærri hlut?
„Ég hefði verið mun ánægðari ef þeir hefðu gert það. Ég ítreka hins vegar að fólk er enn þá að kynnast fyrirtækinu. Ég held að fólk horfi á Nova sem skemmtilegt vörumerki. Hinn hefðbundni jakkafataklæddi fjármálastjóri er kannski ekki líklegur til að dansa í kringum diskókúlurnar.“
Viðtalið við Hugh Short má finna í heild sinni hér. Þar ræðir Hugh einnig um komandi hluthafafund og hlutabréfaverð Nova. Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag.