Ljóst er að staðan í raforkumálum á Íslandi er alvarleg, varað hefur verið við yfirvofandi orkuskorti síðustu ár og er sú staða að raungerast. Umræða um raforkumál hefur aukist síðustu ár, meðal annars innan veggja Alþingis.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafði boðað hátt í 30 þingmál í vetur en hann náði einungis að leggja tvö mál fram fyrir stjórnarslit, annars vegar þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku og hins vegar frumvarp um virkjunakosti vindorku í rammaáætlun.
Meðal mála sem sitja á hakanum eru tvö frumvörp um raforkuöryggi, en þar eru t.a.m. útfærðar skyldur aðila á raforkumarkaði, mælt fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölumarkaði og viðmið fyrir raforkuöryggi, tryggður forgangur almennings og smærri fyrirtækja komi til skömmtunar og vikið að heimildum stórnotenda til að selja ónotaða orku inn á heildsölumarkað.
Þá voru boðuð frumvörp um einföldun leyfisveitinga og annars regluverks, m.a. sem snýr að rammaáætlun. Einnig var boðað frumvarp um raforkuviðskipti til að tryggja gagnsæi á markaði og heilleika upplýsinga en þar er t.a.m fjallað um bann við markaðssvikum og ólögmætum innherjaviðskiptum, opinbera birtingu innherjaupplýsinga, skráningu markaðsaðila og tilkynningarskyld viðskipti.
Sömuleiðis bíður skýrsla ráðherra um raforku sem og þrjár þingsályktunartillögur um verndar- og orkunýtingaráætlun. Átti þar að afgreiða flokkun virkjanakosta sem verkefnastjórn rammaáætlunar hefur samþykkt og fóru í almennt samráð í desember 2023, júní 2024, og haustið 2024.
Óljóst er hvort ný stjórn muni leggja áherslu á að afgreiða næsta áfanga rammaáætlunar en Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, segir mikilvægt að þingið afgreiði þá kosti sem verkefnastjórn hefur lokið afgreiðslu á.
„Meðan við erum ekki með betra kerfi en rammaáætlun til þess að ákveða nýja orkuöflun þá er mikilvægt að það sé góður gangur í þeirri vinnu og að þau mál sem eru tilbúin hljóti meðferð samkvæmt því kerfi sem að nú er í gildi. Það er ekkert sem ætti að stoppa stjórnvöld í að vinna eftir því kerfi og þó að við teljum að annað kerfi ætti að taka við, þá má sú umræða ekki verða til þess að tefja ganginn í orkuöflun og nýjum kostum í landinu.”
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild hér.