Mánuður er í að landsmenn gangi til Alþingiskosninga. Ýmis stór mál blasa við sem næstu ríkisstjórn verður falið að leysa. Ljóst er að efnahagsmálin verði þar ofarlega á baugi og hafa flokkarnir boðað ýmsar lausnir á því sviði í kjölfar stjórnarslitanna. Minna fer þó fyrir lausnum á öðru mikilvægu sviði, sem eru orkumálin en þar er alvarleg staða komin upp.

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, segir að þörfin fyrir því að endurbæta og uppfæra starfsumhverfið í orkumálunum hafa endurspeglast í þeim fjölda þingmála sem orkumálaráðherra boðaði í vetur.

„Það er mjög miður að það skuli ekki takast að fara hratt í að vinna þau en við horfum þó til þess að það er búið að vinna mikið af grunnvinnunni og mikilvægt að hvaða stjórn sem tekur við völdum hér eftir kosningar taki upp þráðinn og haldi sama hraða í að leysa þessi mál.“

Orkuöryggi í öndvegi

Síðastliðin ár hefur afstaða flokkanna á þingi til aukinnar orkuöflunar verið afar misjöfn, allt frá Miðflokknum sem vill virkja strax yfir í Pírata sem telja ekki þörf á aukinni orkuöflun. Stefnumótunarvinna fyrir komandi kosningar stendur nú yfir og ætla má að flokkarnir muni kynna uppfærðar stefnur á komandi vikum.

Finnur telur að allir flokkar sem vilji ná árangri í loftslagsmálum og bæta veg íslensks atvinnulífs hljóti að sjá að finna þurfi betra kerfi en rammaáætlun til að skera úr um nýja orkuöflun og bæta stjórnsýsluna til muna. Stefna flokkanna þurfi þá að vera skýr.

„Ég held að það sé mikilvægt að allir stjórnmálaflokkar svari því hvernig þeir ætla að mæta orkuþörf Íslands til þess að ná loftslagsmarkmiðunum og tryggja heilbrigðan sjálfbæran vöxt í íslensku hagkerfi, bæði til skemmri tíma og lengri tíma. Það er ekki nóg að svara því almennt, það þurfa að vera skýrar tillögur um hvaða úrbætur þau hyggist gera til þess að koma okkur áleiðis,“ segir Finnur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild hér.