Sýn hefur ákveðið að gjaldfæra einskiptisliði upp á um 840 milljónir króna á árinu 2023. Í afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér eftir lokun Kauphallarinnar segir að þetta komi til með hafa afgerandi áhrif á afkomu ársins í ársuppgjöri félagsins.
„Af einskiptisliðum vega þyngst afskriftir sýningarrétta, afskriftir eigna hjá innviðum og kostnaður vegna starfsloka fráfarandi forstjóra, auk starfsloka annarra starfsmanna í tengslum við hagræðingaraðgerðir.“
Tilkynnt var um miðjan októbermánuð að Yngvi Halldórsson hefði gert samkomulag við stjórn fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins um starfslok hans sem forstjóra Sýnar. Herdís Dröfn Fjeldsted tók við stöðu forstjóra félagsins í byrjun þessa árs.
Rekstrarhagnaður undir afkomuspá
Samkvæmt uppgjörsdrögum Sýnar var EBIT-afkoma ársins 2023 um 1.108 milljónir króna án hagnaðar vegna sölu á stofnneti upp á 2.436 milljónir. Leiðrétt fyrir einskiptisliðum er rekstrarafkoma félagsins á árinu 2023 um 1.948 milljónir.
Afkomuspá Sýnar hafði gert ráð fyrir að EBIT-afkoma síðasta árs yrði á bilinu 2,2-2,5 milljarðar króna. Ljóst er því að EBIT-afkoma félagsins verður undir áður útgefnu afkomubili.
Heildar EBIT afkoma ársins að meðtöldum hagnaði vegna sölu stofnnets er samkvæmt uppgjörsdrögum um 3.544 milljónir króna.
Sýn sagði upp 11 starfsmönnum þvert á svið fyrirtækisins í janúarmánuði. Herdís Dröfn sagði samtali við Viðskiptablaðið krefjandi ytri aðstæður, þar á meðal há vaxtabyrði, væri meginskýringin fyrir hagræðingaraðgerðum félagsins.
Sýn áréttar að ársuppgjör félagsins sé enn í vinnslu, sé óendurskoðað og geti tekið breytingum fram að birtingu þann 27. febrúar næstkomandi.