Rekstraraðili Burger King í Rússlandi hefur hafnað tilmælum alþjóðlegu skyndibitakeðjunnar um að hætta starfsemi staðanna þar í landi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. BBC segir frá .

Fjölmörg Vestræn alþjóðleg fyrirtæki hafa lokað rekstri í Rússlandi eftir innrásina. Félagið Restaurant Brands International – sem meðal annars á og rekur Burger King – beindi tilmælunum til Alexanders Kolobov, rekstraraðila þeirra 800 Burger King staða sem starfræktir eru í Rússlandi í gegn um einskonar leyfissamning.

Forsvarsmenn Restaurant Brands segja hinsvegar samstarfssamninginn flókinn, en samkvæmt skilmálum hans sé þeim ekki heimilt að slíta samstarfinu þrátt fyrir neitun Kolobovs.

Hægt væri að breyta skilyrðum leyfisins, en þegar upp væri staðið yrði það undir rússneskum yfirvöldum komið að framfylgja þeim, „og við vitum að það mun ekki gerast á næstunni“, eins og David Shear forstjóri Restaurant Brands komst að orði í bréfi til starfsmanna um málið.

Burger King hefur verið rekið í Rússlandi í áratug og reksturinn – sem er í höndum Kolobov eins og áður sagði, í samstarfi við rússneska fjárfestingafélagið VTB Capital auk úkraínsks félags – er skráður þar á markað.