Streymisveitan Netflix bætti við sig 2,4 milljónum áskrifenda á þriðja ársfjórðungi, en fyrirtækið spáði í júlí að fjölgunin yrði nær einni milljón. Hlutabréf Netflix hafa hækkað um 14% í viðskiptum eftir lokun markaða í dag.
Á fyrsta fjórðungi þessa árs fækkaði áskrifendum Netflix í fyrsta sinn í meira en áratug. Alls fækkaði áskrifendum Netflix um meira en eina milljón talsins á fyrri helmingi ársins. Hlutabréfaverð streymisveitunnar hafði lækkað um 60% fram að lokun markaða í dag.
Sjá einnig: Auglýsingar á Netflix 1. nóvember
„Eftir erfiðan fyrri helming ársins, teljum við að við séum á réttri braut til að bæta vöxt okkar á ný,“ segir í bréfi Netflix til hluthafa.
Neflix segist farið að sjá samkeppnisaðila sína hækka verð hjá sér og ákveðnar streymisveitur skera niður framleiðslukostnað.
Tekjur Netflix á þriðja fjórðungi námu 7,9 milljörðum dala, sem er um 6% aukning frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins dróst hins vegar lítillega saman og nam 1,4 milljörðum dala.