Bandaríska streymisveitan ætlar sér að segja upp 150 starfsmönnum á næstunni en um stefnubreytingu er að ræða hjá fyrirtækinu sem áður var í stöðugum vexti en sér nú fram á fækkun áskrifenda.

„Breytingarnar eru aðallega útaf rekstrinum en ekki vegna frammistöðu einstakra starfsmanna, sem gerir þetta sérstaklega erfitt þar sem enginn vill kveðja góða samstarfsmenn,“ sagði talsmaður Netflix.

Netflix hefur ráðist í ýmsar aðgerðir til að sporna við hægari tekjuvexti fyrirtækisins sem m.a. má leiða af aukinni samkeppni en þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri fyrirtækisins. Hefur fyrirtækið gefið út að það ætli sér að gera það erfiðara fyrir áskrifendur að deila aðgangi með öðrum og sagði nýverið í tilkynningu að starfsmenn þyrftu að þola að vinna við verkefni sem samræmdist illa þeirra pólitísku hugsjónum en fyrirtækið telur það nauðsynlegt til að viðhalda fjölbreytni í efnisvali fyrir áskrifendur.