Hugtakið phishing er notað yfir netsvindl, þar sem reynt er að fá fólk til að heimsækja vefsíður, sem oft líta út fyrir að vera lögmætar.

Svindlararnir senda gjarnan tölvupóst eða sms í þeim tilgangi að ná viðkvæmum persónulegum upplýsingum eins og til dæmis lykilorðum.

Nú er ný tegund netsvindla að ryðja sér til rúms en það er svokallað quishing en þá fær fólk senda QR-kóða, sem beina því inn á svindlsíður. Netöryggisstofnanir í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa vakið athygli á þessari nýju aðferð glæpamanna til að komast yfir viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Greint er frá þessu í Financial Times.

QR-kóðarnir eru gjarnan sendir í pdf-viðhengi og komast þannig í gegnum netöryggiskerfi. Netöryggisfyrirtækið McAfee hefur greint frá því að svindl með QR-kóðum hafi tvöfaldast á einu ári í Bretlandi og séu nú um fimmtungur allra netsvindla þar í landi.