Sérvöruverslunin Nexus hagnaðist um 42 milljónir árið 2021, samanborið við 33 milljónir árið 2020 en um er að ræða tvö bestu rekstrarár í sögu fyrirtækisins.

Velta Nexus, sem rekur spila- og myndasöguverslanir í Glæsibæ og Kringlunni, jókst um 23,6% á milli ára og nam 740 milljónum í fyrra en sala verslunarinnar hefur aukist hratt síðustu ár líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Auk framangreindra verslana tók Nexus í gagnið vefverslun stuttu eftir að Covid-faraldurinn hófst.

Að meðaltali störfuðu 50 starfsmenn hjá fyrirtækinu á síðasta ári en laun og launatengd gjöld námu 157 milljónum.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 198 milljónir í árslok 2021. Eigið fé jókst úr 60 milljónum í 102 milljónir króna á milli ára. Nexus hyggst ekki greiða út arð vegna ársins 2021. Gísli Einarsson á allt hlutafé Nexus afþreyingar ehf.