Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands er í maí. Vangaveltur hafa verið uppi um það hvort nefndin muni bregðast fyrr við. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt að þó óvissan hafi aukist sé enn ekkert komið fram sem breyti því að fundað verði í maí.

Hafsteinn Hauksson.
Hafsteinn Hauksson.

Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir Seðlabankann njóta góðs af því að vaxtastig sé enn tiltölulega hátt. Hann hafi því mikið svigrúm til að bregðast við ytri áföllum með lækkun vaxta.

„Mér finnst líklegt að peningastefnunefnd vilji forðast að bregðast við „utan dagskrár“ – bæði er einfaldlega mikil óvissa um hvernig mun spilast úr þessum tollamálum og sömuleiðis um hver áhrifin á Ísland verða,“ segir Hafsteinn. „Það er allt eins líklegt að einhverskonar neyðarviðbragð á þessum tímapunkti myndi auka óðagotið frekar en að draga úr því. Líklega mun nefndin frekar nota tímann fram að næsta reglulega fundi sínum í maí til að leggja mat á stöðuna og leggja drög að viðbrögðum.“

Á ekki von á sértækum aðgerðum

Hafsteinn segir að það flæki kannski svolítið viðbrögð Seðlabankans að áhrif tollastríðs á verðbólgu í viðskiptalöndum Bandaríkjanna séu tvísýn.

„Eiginlega má segja að tollastríð hafi þau áhrif að bæði framboð og eftirspurn á heimsvísu hliðrast í sömu átt,“ segir Hafsteinn. „Áhrifin á verðlag velta á því hvort framboðs- eða eftirspurnaráhrifin eru sterkari. Ég hallast að því að bakslag í alþjóðlegri eftirspurn valdi því að verðbólguþrýstingu á heimsvísu minnki, eins og við sjáum til dæmis á lækkunum á olíuverði og ýmsum hrávörum síðustu daga. Þá er hugsanlegt að varningur frá ýmsum útflytjendum í Asíu sem leitaði áður á Bandaríkjamarkað verði settur á markað í Evrópu með tilheyrandi verðfalli.“

„Mér finnst því líklegt að viðbrögð Seðlabankans verði einkum þau að lækka vexti hraðar en ella ef tollastríðinu verður haldið til streitu, en ég á ekki von á neinum sértækum viðbrögð umfram það eins og sakir standa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.