Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um að banna fiskeldisfyrirtækinu Arnarlaxi notkun fullyrðinga um sjálfbærni í markaðssetningu og vörumerkjum félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Í ákvörðun Neytendastofu segir að notkun fullyrðinganna „Sustainable salmon farming at Arnarlax takes place on the fish´s terms” og „Sustainability – it´s in our nature” í markaðs- og kynningarefni félagsins brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Hið sama eigi við um notkun orð- og myndmerkjanna „Arnarlax – Sustainable Icelandic Salmon” og „Icelandic Salmon – Sustainable Salmon from Arnarlax”.
Álit stofnunarinnar er að notkun Arnarlax á hugtökunum sjálfbær og sjálfbærni „væri almenn og óljós og ekki studd nægilegum gögnum“.
„Markaðssetningin gefi þannig hinum almenna neytanda ranglega til kynna að laxeldi félagsins í sjókvíum væri að fullu sjálfbært og hafi þannig engin eða í það minnsta hlutlaus áhrif á umhverfið.“
Í svörum Arnarlax kemur fram að félagið starfi á grundvelli starfs- og rekstrarleyfa frá Umhverfis- og Matvælastofnun sem veitt séu samkvæmt lögum. Þá vísar fyrirtækið til þess að starfsemi þess væri vottuð alþjóðlegu vottunarkerfi, ASC, sem taki bæði til umhverfis- og samfélagslegra þátta.
Þá hélt félagið því fram að fullyrðingar þess byggist á gögnum og faglegum niðurstöðum óháðra aðila, leyfisveitenda og eftirlitsstjórnvalda. Enn fremur sé það mat félagsins að Neytendastofa hafi ekki heimildir til að krefjast þess að það færi fram sérstaka sönnun fyrir eða afstöðu til þeirra orða sem fram komi í orðhluta vörumerkja félagsins.