Neytendur í Bandaríkjunum hafa ítrekað komið hagkerfinu til bjargar með því að viðhalda neyslu, jafnvel á erfiðum tímum. Nú, þegar óttinn við efnahagssamdrátt rís á ný, vakna spurningar um hvort neytendur séu að komast á ystu mörk skuldaþols, samkvæmt The Wall Street Journal.

Hlutabréfamarkaðurinn hefur farið versnandi að undanförnu og sérstaklega hefur dregið úr markaðsvirði lánveitenda og kortafyrirtækja.

Stærstu neytendalánveitendur Bandaríkjanna, American Express, Capital One Financial, Discover Financial og Synchrony Financial, töpuðu meira en 4% af markaðsvirði sínu í byrjun vikunnar.

Það sem af er ári hafa þessar fjórar lánastofnanir tapað um 12% að meðaltali.

Aukin vanskil á neytendalánum hafa verið áhyggjuefni undanfarin ár en þau hafa þó ekki verið í þeim mæli að þau hringi viðvörunarbjöllum.

Vanskil hafa einkum verið áberandi hjá þeim hópum sem tóku stór lán á árunum 2021 og 2022 þegar fjöldi neytenda hafði greiðari aðgang að lánsfé vegna ríkisstuðnings og sparnaðar sem safnaðist upp í heimsfaraldrinum.

Margir bankar hafa síðan hert skilyrði fyrir lánveitingum. Matsfyrirtækið Moody’s spáir því að útlánatöp á bíla- og greiðslukortalánum muni minnka lítillega á síðari hluta ársins.

Engu að síður eru fjárfestar uggandi yfir núverandi þróun.

Fyrir það fyrsta er skuldabyrði heimila, að teknu tilliti til verðbólgu, komin yfir það sem hún var fyrir heimsfaraldurinn.

Í lok árs 2024 var meðaltalskreditkortaskuld bandarískra heimila komin yfir 10.000 dali að raunvirði, sem er í fyrsta skipti síðan 2009 samkvæmt gögnum frá WalletHub.

Auk þess er hættan á efnahagssamdrætti eða jafnvel kreppu vaxandi.

Markaðir hafa brugðist illa við yfirlýsingum Trump-stjórnarinnar um viðskiptatolla og viðhorf ríkisstjórnarinnar til efnahagslegra áfalla.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Scott Bessent, nefndi að hagkerfið gæti þurft á „afeitrunartímabili“ að halda til að draga úr ríkisútgjöldum.

Lánveitendur horfa sérstaklega til atvinnustigs þegar þeir meta áhættu. Þó svo að efnahagsvöxtur og hlutabréfamarkaðurinn geti verið sveiflukenndur halda neytendur áfram að greiða skuldir sínar svo lengi sem þeir hafa vinnu.

Því gætu lánveitendur orðið sérstaklega viðkvæmir fyrir atvinnumissi, jafnvel þótt hann yrði aðallega meðal opinberra starfsmanna eða þeirra sem vinna í greinum sem reiða sig á innfluttar vörur.

Eitt áhyggjuefni er einnig hvernig neytendur forgangsraða skuldum sínum. Hærra húsnæðisverð og lágir vextir á íbúðalánum hafa leitt til þess að neytendur setja húsnæðislán ofar öðrum skuldum. Samkvæmt nýlegri rannsókn frá Seðlabanka New York hefur þessi forgangsröðun náð hæstu hæðum frá aldamótum

Vanskil tekjuhárra tvöfaldast

Tekjulægri hópar, sem oft treysta á sérhæfða lánveitendur frekar en stórbankana, eru viðkvæmastir fyrir verðhækkunum á nauðsynjavörum.

Hins vegar veldur það meiri áhyggjum að vanskil eru að aukast meðal tekjuhærri einstaklinga.

Frá janúar 2023 til janúar 2025 hefur hlutfall þeirra sem hafa árstekjur yfir 150.000 dali og eru 60-89 daga í vanskilum tvöfaldast.

Þó svo að þetta hlutfall sé enn lágt (0,16% af útistandandi skuldum) er aukningin meiri en hjá millitekjuhópum og þeim tekjulægstu.

Samkvæmt Rikard Bandebo, aðalhagfræðingi hjá VantageScore, eru áhyggjurnar hvað mestar meðal þeirra sem eiga ekki mikinn eignasparnað í formi húsnæðis eða fjárfestinga

„Árið 2025 munu fleiri neytendur glíma við að samræma aukin útgjöld við raunverulegar tekjur sínar,“ segir Bandebo.

Þessi hópur neytenda er sá sem hefur mest svigrúm til að spara en jafnframt hefur hann mikil áhrif á hagkerfið ef hann hægir á neyslu sinni.

Þrátt fyrir þetta hafa bandarískir neytendur enn nokkra biðstöðu. Skuldahlutfall heimila var í lok þriðja ársfjórðungs 2024 enn undir því sem það var fyrir faraldurinn, samkvæmt gögnum Seðlabanka Bandaríkjanna.

Hins vegar mótast neysluhegðun ekki eingöngu af fjárhagsstöðu dagsins í dag heldur einnig af væntingum um framtíðina.

Í könnun Seðlabankans í febrúar 2025 töldu neytendur að líkurnar á því að þeir gætu ekki staðið í skilum á lágmarksafborgun næstu þriggja mánaða væru 14,6%, sem er hæsta hlutfall síðan í apríl 2020.

Ef efnahagsástandið versnar gæti dregið hratt úr neyslu, sem myndi hafa víðtæk áhrif á hagkerfið. Þess vegna er þróun í greiðsluhæfi neytenda mikilvæg breyta til að fylgjast með í komandi mánuðum.