Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hefur undirritað 7 ára lánasamning við Ljósleiðarann, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, til að styðja við fjárfestingar í ljósleiðarakerfinu á Íslandi á árunum 2024–2026.

NIB segir í tilkynningu að lánið, sem nemur 4 milljörðum króna (27,6 milljónum evra), sé veitt til samfjármögnunar á uppbyggingarverkefnum Ljósleiðarans.

„Fjármagnið mun renna í áframhaldandi uppbyggingu ljósleiðarakerfisins, þar á meðal ljósleiðaratenginga við heimili og fyrirtæki, þróun net- og flutningskerfa sem styðja við örugga og skilvirka gagnaflutninga, auk styrkingar á kerfinu.“

Lánið er fjármagnað með tekjum frá sjö ára, 8,5 milljarða íslenskra króna verðtryggðu umhverfisskuldabréfi NIB, gefnu út 20. febrúar.

„Það skiptir miklu máli að Ljósleiðarinn vinni með öflugum og traustum aðila þegar kemur að fjármögnun. Með þessum samningi við NIB tryggjum við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins og getum haldið áfram að byggja upp trausta og örugga innviði fyrir fólkið í landinu bæði þegar kemur að atvinnurekstri og hinu daglega lífi,“ segir Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.

Forstjóri NIB, André Küüsvek, segir fjármögnun Ljósleiðarans styðja við markmið bankans um framleiðniaukningu og sjálfbærni á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

„Það er okkur sönn ánægja að styðja við þessar mikilvægu fjárfestingar í stafrænum innviðum á Íslandi. Sterkir fjarskiptainnviðir eru forsenda hagvaxtar og nýsköpunar, og verkefnið fellur vel að áherslum NIB um sjálfbærni og tæknilega framþróun,“ segir André.