Niceair hefur aflýst öllu flugi frá og með morgundeginum og gert hlé á allri starfsemi sinni. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins, segir við RÚV að HiFly, erlendur samstarfsaðili Niceair, hafi ekki staðið í skilum með afborganir til eiganda flugvélarinnar ‏þrátt fyrir að akureyrska flugfélagið hafi greitt allar sínar afborganir.

Fyrir vikið hafi Niceair misst einu flugvél sína og geti því ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart flugfarþegum. Síðasta flugferð Niceair var til og frá Kaupmannahöfn á sunnudaginn.

Í samtali við mbl.is segir Þorvaldur Lúðvík að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort starfsfólki verði sagt upp. „Það gæti vel verið að þetta ley­ist fyr­ir sum­arið. Okk­ur er gert ókleift að halda áfram að selja miða á meðan við erum ekki klár með vél. Við erum búin að róa lífróður að reyna að finna vél und­an­farna daga,“ er haft eftir honum.

Í síðustu viku var flugvél sem Niceair hafði á leigu kyrrsett við komu til Kaupmannahafnar vegna deilna á milli eiganda og leigutaka vélarinnar. Niceair neyddist því til að útvega sér nýja vél til að koma farþegum aftur til Íslands.

Þorvaldur Lúðvík sagði við Túrista á föstudaginn að félagið hefði reddað helginni en áfram væri unnið að langtímalausn á stöðunni. Félagið studdi sig við þotu frá Centrum Air, leigufélagi frá Úsbekistan, um helgina.

Niceair hóf áætlunarflug í júní 2022 og var með ferðir til Danmerkur, Bretlands og Spánar. Félagið neyddist hins vegar til að taka ferðir til Standsted í London úr sölu í vetur vegna vandkvæða sem sneru að flugrekstrarleyfi HiFly.

Í viðtali við Viðskiptablaðið síðasta sumar lýsti Þorvaldur Lúðvík Niceair sem svokölluðu „virtual airline“ sem felur í sér að öll viðskiptaleg umsjón er í höndum Niceair en flugtæknilegi hlutinn og flugrekstrarleyfið sé í höndum annarra. Þannig gæti Niceair farið varlega af stað og nýtt sér stærðarhagkvæmni annars staðar frá.