Breski-sænski lyfjaframleiðandinn AstraZeneca, sem er hvað þekktastur fyrir framleiðslu á einu mest notaða Covid-19 bóluefni heims, greindi frá því í vikunni að þyngdarstjórnunarlyf félagsins, í samstarfi við kínverska lyfjafyrirtækið Eccogene, hafi komið vel út úr fyrsta fasa rannsókna.

Aukaverkanir lyfsins séu í samræmi við aukaverkanir lyfja undir flokki GLP-1 agonista. Fasinn innihélt 72 þátttakendur sem voru annaðhvort heilbrigðir einstaklingar, eða einstaklingar með sykursýki 2.

Í kjölfarið verður farið í fasa-II rannsókn, að sögn Sharon Barr, framkvæmdastjóra rannsókna og þróunar hjá fyrirtækinu. Barr kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á ObesityWeek ráðstefnunni í San Antonio í Texas nú á dögunum.