Í dag eru tíu ár liðin frá því að orkudrykkurinn Nocco leit fyrst dagsins ljós á Íslandi. Drykkurinn var fyrst framleiddur í Svíþjóð árið 2014 en hefur hins vegar selst einstaklega vel hér á landi.
Heildsalan Core, umboðsaðili Nocco á Íslandi, hefur einnig notið gríðarlegrar velgengni en árið í fyrra var það stærsta hjá fyrirtækinu frá upphafi. Velta heildsölunnar náði þremur milljörðum króna í fyrsta sinn og jókst sala Nocco á Íslandi þar að auki um 15%.
Arnar Freyr Ársælsson, markaðsstjóri Core, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið sé gríðarlega stolt með árangurinn. Mikill spenningur hafi einnig myndast í kringum afmælið og í tilefni koma nokkrar eldri bragðtegundir aftur í verslanir í dag.
„Við höfum verið að auglýsa og spyrja viðskiptavini á samfélagsmiðlum hvaða tegundir þeir myndu vilja sjá koma aftur. Tvær tegundir frá 2015, með peru- og ferskjubragði, munu mæta aftur í verslanir og eins kemur Caribbean frá 2018 aftur í hillurnar.“
Hann segir að perutegundin hafi frá upphafi verið ein vinsælasta tegundin en frá því hún hætti hér á landi hafi fyrirtækið fengið margar fyrirspurnir á hverju ári hvenær hún kæmi mögulega til baka.
Uppbygging Nocco tók sinn tíma
Arnar segir að Nocco hafi fyrst verið framleiddur í Svíþjóð árið 2014 og héldu því Svíarnir upp á tíu ára afmæli í lok síðasta árs. Árið 2015 varð Ísland síðan fyrsta landið til að flytja drykkinn frá Svíþjóð.

„Það halda allir að þetta hafi strax byrjað að mokast út en þetta tók smá tíma í uppbyggingu. Það þekkti það til dæmis enginn að vera með kolsýrða drykki í dós í ræktinni eða á æfingu.“
Hann segir að orkudrykkjamarkaðurinn hafi þegar verið til staðar á Íslandi en ekki í þeirri mynd sem hann er í dag, Nocco hafi breytt leiknum. Nocco sé fyrst og fremst íþróttamiðaður drykkur og flokkast sem hollari virknisdrykkur þar sem hann inniheldur meðal annars amínósýrur og vítamín.
„Svo nær dreifing og markaðssetning góðri fótfestu og árið 2017 kom Tropical-bragðtegundin á markað en það var í raun fyrsta bragðtegundin sem byrjaði að seljast upp.“
Core hefur verið að stækka jafnt og þétt síðustu ár. Fyrirtækið kynnti til dæmis nýlega maíssnakkið Naís á markað en sú vara er svipuð PopCorners sem fyrirtækið bauð upp á áður fyrr.
„Snakkið er hollara, loftpoppað og manni líður betur eftir að hafa borðað það. Svo er áferðin og bragðið líka öðruvísi heldur en maður er vanur. Eina vandamálið hjá okkur hefur bara verið að framleiða nóg til að anna eftirspurninni,“ segir Arnar.