Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, fjárfestar og eigendur Ikea á Íslandi, voru meðal 10 fjármagnstekjuhæstu Íslendinganna árið 2023 með samanlagt 2,5 milljarða en ýmsir aðrir fjárfestar rata sömuleiðis á listann.

Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, fjárfestar og eigendur Ikea á Íslandi, voru meðal 10 fjármagnstekjuhæstu Íslendinganna árið 2023 með samanlagt 2,5 milljarða en ýmsir aðrir fjárfestar rata sömuleiðis á listann.

Utan þeirra bræðra var fyrrum skattakóngurinn Pétur Björnsson efstur en fjármagnstekjur hans námu 778 milljónum króna í fyrra, samkvæmt álagningarskrá Skattsins. Pétur var meðal stofnenda Ísfells en í dag á hann hluti í ýmsum félögum.

Skammt á eftir kemur Bogi Þór Siguroddsson, eigandi heildsölunnar Fagkaups og fjárfestingafélagsins Bóksal, með 758 milljónir. Bogi og eiginkona hans, Linda Björk Ólafsdóttir, sem einnig er eigandi umræddra félaga, hafa verið meðal tekjuhæstu Íslendinganna ár eftir ár.

Eini kvenkyns fjárfestirinn sem ratar á listann, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst, er Margrét Ásgeirsdóttir en hún á nokkur félög, meðal annars hótelið Oddsson, í gegnum félagið S9 ehf. Fjármagnstekjur Margrétar námu 524 milljónum króna en félagið hennar, S9, hagnaðist um 638 milljónir í fyrra.

Meðal annarra fjárfesta á listanum eru Gunnar Þór Benjamínsson, einn eigenda GG Invest og Trausttaks, með 422 milljónir og Hreggviður Jónsson, aðaleigandi Stormtrés, með 273 milljónir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann yfir 150 fjármagnstekjuhæstu einstaklingana árið 2023 í heild hér.