Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum stóðu fyrirtæki og einstaklingar betur í skilum en nokkru sinni fyrr á faraldurstímum. Greiðsluhraði fyrirtækja og einstaklinga jókst mjög mikið milli áranna 2020 og 2021 og hefur aldrei verið betri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu kröfustýringar- og innheimtufyrirtækisins Motus um lykiltölur sveitarfélaga árið 2022.
Greiðsluhraði er mælikvarði sem Motus notar til að greina þróun innheimtu. Mælikvarðinn byggir á öllum stofnuðum kröfum hvers viðskiptavinar og er greiðsluhraði mældur út frá því hversu hratt kröfur greiðast, það er hversu hátt hlutfall stofnaðra krafna er greitt á tilteknum tímapunktum. Eftir því sem hlutfallið hækkar eykst greiðsluhraði og er því jákvætt að greiðsluhraði sé mikill
Í skýrslu Motus kemur fram að á eindaga sé greiðsluhraði mestur á Norðurlandi eystra og minnstur á Suðurlandi. Sama staða sé uppi 30 dögum eftir eindaga, það er mesti greiðsluhraðinn á Norðurlandi eystra og minnsti á Suðurlandi.
Þá kemur jafnframt fram að einstaklingar séu greiðendur þriggja af hverjum fjórum útgefnum kröfum viðskiptavina Motus, og hjá sveitarfélögum sé það hlutfall 82%. Kröfur á einstaklinga séu hins vegar mun lægri en kröfur á fyrirtæki og fyrirtækin eigi því stærri hluta af kökunni þegar skiptingin sé skoðuð út frá upphæð krafna. Einstaklingar eiga þó 56% af heildarupphæð krafna sveitarfélaga en þegar upphæð krafna allra viðskiptavina Motus er skoðuð má sjá að 70% upphæðarinnar er á hendur fyrirtækjum.