Norska hugbúnaðarfyrirtækið Visma hefur fest kaup á íslenska hátæknisprotafyrirtækinu Payday. Með þessum fyrstu kaupum á íslensku félagi starfar Visma nú á Norðurlöndunum öllum.
Payday var stofnað árið 2017 og býður smærri fyrirtækjum upp á bókhaldskerfi og launabókhald í skýinu. Auk þess sér Payday um sjálfvirk samskipti við íslensku bankana, skattyfirvöld og er samþætt við sölukerfi eins og WooCommerce og Shopify.
“Við erum virkilega ánægð að bjóða Payday velkomin í Visma fjölskylduna og um leið að stíga okkar fyrsta skref inn á Íslandsmarkað. Payday teymið hefur þróað framúrskarandi vöru sem einkennist af hágæða þjónustu og vel útfærðri virkni, svo það er ekki erfitt að sjá af hverju fleiri og fleiri velja Payday.”, segir Nebojsha Mihajlovski, starfandi stjórnarformaður hjá Visma félaginu PowerOffice og verðandi stjórnarformaður Payday.
„Frá stofnun hefur markmið Payday verið að auðvelda smærri rekstraraðilum lífið”
Fyrirtækið stefnir einnig á aukna þróun með Payday Greiðslur, gervigreindarvirkni í afstemmingu og uppgjöri.
„Frá stofnun hefur markmið Payday verið að auðvelda smærri rekstraraðilum lífið. Við höfum notið þess að vinna þétt með okkar viðskiptavinum og höfum fengið ómetanlegar ábendingar um hvað mætti betur fara, en augljóslega hafa viðskiptavinir einnig bent sínum vinum á okkur, samanber vöxt okkar undanfarin ár,” segir Björn Hr. Björnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Payday.
Payday mun áfram starfa sem sjálfstætt félag í eigu Visma, með sömu framkvæmdastjórn og lykilstarfsmenn.