Inniskóaframleiðandinn Birkenstock verður brátt skráð á markað og stefnir á að safna 1,6 milljörðum dala í hlutafjárútboði.

Í útboðinu stefnir þýski inniskóaframleiðandinn á að bjóða út 10,75 milljónir nýrra hluta í fyrirtæki á verðinu 44 til 49 dali á hlut. Stærsti hluthafi félagsins, fjárfestingarfélagið L Catterton, hyggst einnig minnka hlut sinn með því að selja 21,51 milljón hluta á sama verði í útboðinu.

Meðal aðila sem sagðir eru áhugasamir um að tryggja sér eignarhlut í Birkenstock eru norski olíusjóðurinn sem sagður er áhugasamur um að kaupa hlutabréf fyrir 300 milljónir dala.

Þá hefur fjárfestingarfélag í eigu milljarðamæringsins Bernard Arnault, stjórnarformanns LVMH, og fjölskyldu hans áhuga á að bæta við hlut sinn í félaginu og kaupa fyrir 325 milljónir dala í útboðinu.