Seðlabankinn hefur látið framkvæma könnun um greiðsluhegðun heimila, meðal annars notkun á ólíkum greiðslumiðlum og greiðsluaðferðum, í hvaða tilgangi heimilin nota reiðufé og hversu mikið þau nota það til kaupa á vöru og þjónustu. Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, segir markmiðið með könnuninni að greina stöðu og þróun greiðslumiðla og greiðsluinnviða í viðskiptum.
„Slíkar greiningar veita Seðlabankanum, stjórnvöldum og haghöfum mikilvægar upplýsingar til að taka afstöðu til öryggis, skilvirkni og hagkvæmni við greiðslumiðlun og móta stefnu í þeim efnum.“
Gunnar bætir við að reiðufjárnotkun hafi verið einna minnst hér á landi af þeim löndum sem við berum okkur saman fyrir fjármálahrun, og að staðan sé enn þannig. „Það er þó alltaf einhver hópur sem notar reiðufé og sá hópur er líklegri til að hafa eitthvert reiðufé tiltækt.“
Samkvæmt Gallup-könnun sem var framkvæmd síðastliðið vor sagðist einn af hverjum þremur svarenda nota reiðufé og fækkaði þeim um 6,5% samanborið við 2020. 7,5% svarenda sögðust þá nota reiðufé til að greiða fyrir vöru og þjónustu á sölustöðum, en sambærilegt hlutfall var 12,8% árið 2018. Þá er fjölgun í öllum aldurshópum sem segjast ekki nota reiðufé á sölustöðum, milli áranna 2018 og 2022.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.