Fjarskiptafélagið Nova er orðið minnsta félagið á aðalmarkaði Kauphallarinnar, sé miðað við markaðsvirði, eftir 6,6% hækkun á hlutabréfaverði Sýnar í dag.

Nova var skráð í Kauphöllina þann 21. júní síðastliðinn að undangengnu almennu hlutabréfaútboði í byrjun síðasta mánaðar. Gengið í útboðinu var 5,11 krónur en hefur síðan lækkað um 15,7% og stóð í 4,31 krónu við lokun markaða í dag. Markaðsvirði Nova nemur 16,5 milljörðum króna samanborið við 19,5 milljörðum í útboðinu.

Sýn hefur verið minnsta félag aðalmarkaðarins en markaðsverð hlutabréfa félagsins hækkaði um 11% í vikunni, ekki síst vegna fjárfestingar nýstofnaða fjárfestingafélagsins Gavia Invest sem er orðið stærsti hluthafi Sýnar með 16,1% hlut. Markaðsvirði Sýnar nemur nú 17,4 milljörðum.

Næstu félögin þar fyrir ofan eru Iceland Seafood International, Origo og Ölgerðin. Stærstu félög aðalmarkaðarins eru hins vegar Marel sem er 466 milljarðar að markaðsvirði, Arion með 265 milljarða markaðsvirði og Íslandsbanki með 256 milljarða markaðsvirði.

Útgerðarfélögin Síldarvinnslan og Brim eru svo fjórðu og fimmtu stærstu félög aðalmarkaðarins.

Markaðsvirði félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar 29. júlí 2022.

Félög Markaðsvirði í ma.kr.
Marel 465,7
Arion 264,9
Íslandsbanki 256,0
Síldarvinnslan 175,9
Brim 170,4
Kvika 97,2
Eimskip 94,4
Hagar 81,1
Síminn 81,6
Icelandair 74,3
Festi 70,5
Reitir 68,8
Reginn 59,4
Eik 52,9
Sjóvá 41,8
Skel 33,9
VÍS 33,6
Ölgerðin 28,6
Origo 27,6
Iceland Seafood 26,7
Sýn 17,4
Nova 16,5