Vátryggingafélagið Novis braut gegn skyldum sínum með að fjárfesta ekki mótteknum iðgjöldum viðskiptavina að fullu samkvæmt vátryggingarsamningum. Þetta er niðurstaða vettvangsathugunar Seðlabanka Slóvakíu (NBS) en Novis er slóvakískt félag.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) greinir frá þessu á vef sínum en í september lagði eftirlitið tímabundið bann við nýsölu vátryggingaafurða Novis á Íslandi vegna málsins. Bankastjórn NBS felldi sölubannið úr gildi þann 12. febrúar síðastliðinn.
Félagið Tryggingar og ráðgjöf, sem séð hefur um sölu á tryggingum frá Novis hér á landi, sendi frá sér tilkynningu í september þar sem félagið sagði að svo virðist sem að FME hafi misskilið yfirlýsingu Seðlabanka Slóvakíu um Novis á sínum tíma. Umrædd ákvörðun NBS hafi verið eftirlitsákvörðun, þ.e. Novis sendi reglulega skýrslur til Seðlabankans í Slóvakíu um fjárfestingaeignir og lausafjárstöðu á móti endurkaupsvirði útgefinna tryggingasamninga. Fullyrt var að Novis hafi fylgt þessu vandlega eftir.
„Allar skýrslur NOVIS hafa verið mótteknar athugasemdalaust af hálfu Seðlabanka Slóvakíu og ekkert sölubann, eða hindrun á sölu NOVIS afurða hefur komið fram,“ segir í tilkynningu Tryggingar og ráðgjafar sem var birt í september.
Mánuði síðar birti FME aðra tilkynningu þar sem eftirlitið tók fram að ákvörðunin um sölubannið næði eingöngu til þess að ljúka gerð (e. conclude) samninga.
Novis var stofnað árið 2014 í Slóvakíu. Félagið er með útibú í Austurríki, Tékkandi og Þýskalandi og þjónustu án starfsstöðvar í Finnlandi, Ítalíu, Íslandi, Litháen, Póllandi, Svíþjóð og Ungverjalandi.